mánudagur, 18. júní 2007

Evrópa minnkar eitur

Útblástur eitraðra lofttegunda virðist hafa minnkað í Evrópu árið 2005 samkvæmt nýjum tölum. Mælingar eru að vísu ónákvæmar og segja okkur ekki, hvort þetta sé þróun með framhaldi. Tölur fyrir árið 2006 eru ekki til. Batinn fullnægir ekki samkomulaginu frá Kyoto, átti að vera 8%, en reyndist vera 1,5%. En ljóst er þó, að Evrópa hefur forustu í heiminum um að bæta andrúmsloftið. Löndin hafa lagt misjafnlega mikið af mörkum. Finnland og Þýzkaland mikið, en löndin við Miðjarðarhaf ekkert, minna en Austur-Evrópa. Evrópusambandið mun nú herða aðgerðir til að knýja Evrópu til hraðari bata.

sunnudagur, 17. júní 2007

Sigið niður af tindinum

Hefðbundin fréttamiðlum blómstrar á fyrsta áratug þessarar aldar. Við höfum tvö áskriftarblöð og tvö fríblöð, tvennt fréttasjónvarp og fréttaútvarp, tvo veffréttamiðla. Við fáum fullt af fréttum, þar á meðal fréttir, sem kosta vinnu og skipta máli. Aldrei hafa jafnmargir haft atvinnu af fréttum hér á landi. Almenn menntun blaðamanna er góð, þótt sárafáir þeirra hafi lært blaðamennsku. Hins vegar eru blikur á lofti. Erlend reynsla sýnir tekjutap hefðbundinna fréttamiðla og samdrátt í atvinnumennsku. Óvandaðar fréttir ókeypis bloggara sækja hratt fram og rugla tekjumynstri fagmanna.

Lepparnir stinka

Því meira sem Ísrael og Bandaríkin styðja framsóknarflokkinn Fatah í Palestínu með vopnum og peningum, þeim mun meira flykkist fólk í faðm Hamas. Það er gallinn við aðferðir Bandaríkjanna við að vinna hug og hjörtu fólks. Þær fæla fólkið frá. Það dugir ekki að stilla upp gerspilltum framsóknarmönnum, sem eiga að vera þjónustuliprir. Sama sagan er um öll miðausturlönd. Leppar Bandaríkjanna eru yfirleitt kúkar, sem landslýður hatar. Því meira sem hernámslið hampa mönnum af tagi Quislings, þeim mun verr gengur kúgunin. Bandaríkin hafa aldrei lært neitt af veraldarsögunni.

Íslenzkur fréttavefur

Mér líst vel á, að Pétur Gunnarsson og Andrés Jónsson stofni fréttavef á netinu. Tækni og tími kalla á slíkt framtak. Því meira sem ég les um vefinn og veftengda farsíma, þeim mun meira trúi ég á gagnvirku fréttamiðlunina. Hefðbundnir fjölmiðlar munu eiga erfitt með standast áhlaup breytinganna. Áskrifendum fækkar og horf á auglýsingar minnkar. Framtak og nýjungar lyfta veraldarvefnum, óendanlegum hafsjó mismunandi gagnlegra upplýsinga. Ég nota nærri eingöngu vefinn til að finna upplýsingar. Þótt flestar séu þær raunar upprunnar í fagmennsku hefðbundinna fjölmiðla, sem á undir högg að sækja.